Joseph Conrad

Því hefur verið haldið fram að Joseph Conrad hafi verið besti rithöfundur Breta um og eftir aldamótin 1900, sem verður að teljast með ólíkindum af ýmsum orsökum.  Í fyrsta lagi var hann ekki breskur og lærði ekki ekki enska tungu fyrr en hann var kominn yfir tvítugt.  Þá er ekki beint hægt segja að lífið sem hann lifði fram að því að hann byrjar að skrifa hafi verið dæmigert fyrir bókmenntamann framtíðarinnar.  En með ótrúlegri seiglu og dugnaði tókst honum að skrifa sig í fremstu röð enskumælandi rithöfunda og enn þann dag í dag er hann talinn með bestu enskumælandi höfundum sem hafa þann hæfileika að tala inn í nútímann jafnt eins og hann talaði inn í sína eigin samtíð.  Hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans eins og t.a.m. óskarverðlaunamyndin Apocalypse Now sem byggð er á sögunni Heart of Darkness. Þekktustu verk hans auk þeirrar sögu eru  Lord Jim (1900), Nostromo (1904) og The Secret Agent (1907).

Joseph Conrad fæddist í Úkraínu 3. desember 1857 og hét upphaflega Teodor Józef Konrad Korzeniowski. Var hann einkabarn foreldra sinna, sem voru af pólsku bergi brotin og virk í andspyrnuhreyfingu gegn yfirráðum Rússa.  Faðir hans var virt ljóðskáld og þýðandi og má eflaust rekja bókmenntaáhuga Conrads að einhverju marki þangað.  Minntist Conrad þess síðar þegar hann hlustaði og fylgdist átta ára gamall með föður sínum þýða höfunda á borð við Shakespeare og Victor Hugo til að afla tekna.  Þá kynnti faðir hans hann fyrir verkum höfunda eins og Walter Scott, James Fenimore Cooper og Charles Dickens. 

Árið 1861 þegar Conrad var á fjórða ári var faðir hans handtekinn af yfirvöldum og sakaður um þátttöku í samsæri gegn ríkisstjórninni.  Var hann var sendur í útlegð til Norður-Rússlands og fjölskyldan fylgdi með.  Þar tók við erfitt líf sem gekk nærri foreldrum hans og lést móðir hans úr berklum í útlegðinni árið 1865.  Faðir hans var náðaður 1867 en þá var hann búinn á sál og líkama og lést í Kraká tveimur árum síðar.

Þar með var Conrad orðinn einstæðingur einungis 12 ára gamall.  Var hann settur í umsjá móðurbróður síns Tadeusz Bobrowski, sem reyndist honum á allan hátt vel.  Kostaði hann drenginn í góða skóla, þrátt fyrir að Conrad hafi ekki fallið skólavistin.  Það er á þessum árum sem Conrad fer að tala um að hann langi til sjós, sem skaut nokkuð skökku við hjá dreng sem alinn var upp fjarri sjó.  Þegar hann er orðinn sextán ára gamall (1874) ákveður hann að láta draum sinn verða að veruleika og ferðast til Marseille með aðstoð frænda síns til að gerast lærlingur á skipi í franska verslunarflotanum.  Gekk það eftir og Conrad hlaut fyrstu reynslu sína sem sjómaður þar. 

Sjómennskan féll honum vel í geð, og mun hann hafa verið duglegur sjómaður.  Eitthvað fékkst hann á þessum árum við að smygla vopnum og notaði hann þá reynslu sína síðar er hann samdi bókina Nostromo.

Eftir nokkur ár á frönskum skipum snýr hann aftur til Marseille og er þá skuldum vafinn.  Í kjölfarið reyndi hann að svipta sig lífi.  Ekki gekk það eftir en þegar hann er búinn að jafna sig á því ræðst hann sem sjómaður á breskt skip, einkum vegna þess að hann óttaðist að vera kallaður í herinn í Frakklandi.  Árið 1878 stígur hann svo fyrst á enska grund. 

Conrad starfaði 16 ár samfleytt við breska verslunarflotann og lenti í ýmsum hrakningum á þeim tíma sem hann notaði óspart í bækur sínar og sögur síðar meir.  Vann hann sig á endanum upp í að verða skipstjóri og árið 1886 fékk hann breskan ríkisborgararétt.  Á sjónum hafði hann töluverðan lausan tíma og hóf að skrifa.  Árið 1889 er hann staddur í London og bíður eftir skipsplássi.  Þá byrjar hann að skrifa söguna Almayer's Folly

Það sama ár fréttir hann af lausri stöðu í Kongó sem fólst í því að stýra fljótabát á Kongófljóti og sótti um það starf.  Ástæðuna fyrir því sagði hann síðar hafa átt rætur að rekja til þess þegar hann var fjögurra ára gamall.  Þá hafði hann einhverju sinni bent á einhvern stað á heimskorti og sagt:  „Þegar ég verð stór ætla ég að fara þangað.“  Þessi staður var Kongó.  Ekki reyndist dvölin þar honum létt og gekk nærri honum bæði andlega og líkamlega, en hann náði sér aldrei að fullu eftir það og þó var hann þar einungis í fjóra mánuði.  Reynsla hans frá Kongó er uppistaðan í hinni þekktu sögu Heart of Darkness

Hann hélt þó áfram á sjónum í nokkur ár eftir það eða þangað til frændi hans lést árið 1894.  Hafði frændi hans styrkt allan tímann meðan hann var á sjó, en nú var sú uppspretta uppurin og hann taldi sig hreinlega ekki hafa efni á því að vera á sjó lengur. 

Þar sem hann hafði þá lokið við söguna Almayer's Folly ákvað hann að senda hana til útgefanda og honum til undrunar var hún samþykkt og gefin út ári síðar (1895).  Það er fyrst þá sem hann fer að kalla sig Joseph Conrad enda taldi hann að breskir bókakaupendur myndu eiga í erfiðleikum með raunverulegt nafn hans.  

Hlaut bókin góðar viðtökur gagnrýnenda og var hann hvattur til að halda áfram á sömu braut. Árið 1896 kom út bókin An Outcast of the Islands.  Hlaut hún einnig góðar viðtökur og þar með var framtíðin ráðin.  Í kjölfarið kom smásagnasafnið The Nigger of the Narcissur (1897), Lord Jim (1900), Youth (1902) og Typhoon (1903). 

Árið 1895 giftist Conrad stúlku að nafni Jessie George sem var sextán árum yngri en hann og settust þau að í suðurhluta Englands.  Áttu þau í töluverðu basli framan af enda starf rithöfunds ekki vel launað og auk þess var Conrad aldrei vel hraustur eftir ævintýri sitt í Kongó.  Það var ekki fyrr en um 1910 að nafn hans fer að telja meira í bókmenntaheiminum og bækur hans að seljast betur.  Þá fyrst fór hagur þeirra að batna.  Eignuðust þau tvo syni. 

Þá komu út sögurnar Under Wester Eyes (1911), Chance (1912) og Victory (1915) sem allar urðu gríðarlega vinsælar. 

Þrátt fyrir slæma heilsu hélt Conrad áfram að skrifa alveg fram í andlátið.  Í apríl árið 1924 bauðst honum að vera aðlaður en hafnaði því góða boði.  Lést hann síðar það ár. 

Rithöfundurinn

Sögur Conrads teljast til raunsæis og má það til sanns vegar færa, en stíllinn er þó meira impressionískur, þar sem hann leggur mikið í að skapa lifandi myndir af umhverfinu og atburðarásinni frekar en segja allt berum orðum.  Lesandinn verður að geta í eyður og fylla inn í þar sem hlutlægri nákvæmni er ábótavant.  Var hann ásamt hinum bandaríska Stephen Crane og Englendingnum Henry James einn helsti fulltrúi þeirrar stefnu meðal enskumælandi höfunda. 

Efniviðinn í sögur sínar sótti Conrad töluvert í eigið líf, ekki síst notaði hann sjómennskuna sem uppsprettu í stóran hluta af sögum sínum.  Þá hafði hann ferðast mikið til staða sem margir höfðu einungis haft fregnir af og hefur það eflaust orðið til að auka vinsældir bóka hans. 

Persónurnar í sögum Conrads voru oft einmana en heillandi sálir sem áttu sér engan skýran farveg í lífinu eða þá ósköp venjulegir menn sem kastað var út í óvenjulegar aðstæður og misstu þannig tengslin við fortíðina og þau gildi sem hún hafði fengið þeim.  Var Conrad snillingur í að lýsa þeirri togstreitu sem myndaðist í huga þessa fólk og hvernig það fór að takast á við nýjan raunveruleika. 

Eins og áður sagði er Heart of Darkness kannski þekktasta sagan hans og enn þann dag í dag er hún skyldulesning allra sem leggja bókmenntir fyrir sig.  Byggir hún að miklu leyti á raunverulegum upplifunum Conrads sjálfs og aðalpersónan Kurtz var raunverulegur maður sem Conrad hitti. 

Það er ekki hægt að ljúka við umfjöllun um Conrad án þess að minnast á hæfileika hans til að tileinka sér ný tungumál.  Þessi hæfileiki sést kannski best á því að hann nær slíku valdi á ensku að margir telja hann enn þann dag í dag einn besta stílista á þeirri tungu sem uppi hefur verið og var enskan þó þriðja tungumálið sem hann lærði, en áður var hafði hann notast við pólsku og frönsku.